Spor 1 - reglur

Spor 1
Í Spori 1 er rakin um 300 m slóð sem maður (sporari) hefur lagt.
Slóðin á að vera með tveimur 90° beygjum, tveimur millihlutum og einum endahlut.
Hlutirnir þurfa að hafa verið í snertingu við sporara í a.m.k. 30 mínútur áður en sporið er lagt til þess að bera lykt hans.
Sporið á að vera minnst 20 mínútna gamalt og mest 50 mínútna gamalt.
Hámarkstími sem teymið (stjórnandi og hundur) fær til að vinna sporið er 15 mínútur.
Sporið gefur samtals 100 stig þar af er sporavinnan 70 stig og hlutir 30 stig (10 +10+10). Sporið er dæmt af dómara með réttindi til að dæma spor og sérstakur prófstjóri stýrir framkvæmd prófsins.
Prófstjóri getur ráðið aðstoðarmenn við framkvæmd prófsins.

Almenn ákvæði
Dómari ákvarðar röð þátttakenda og tilkynnir hana í upphafi prófs.
Dómari eða prófstjóri ákveður hvernig sporið er lagt með tilliti til umhverfis og landslags.
Sporin, sem lögð eru fyrir þátttakendur, eiga að vera ólík með mislöngum leggjum eftir aðstæðum, mismunandi beygjum og bil í millihluti mega vera mislöng.
Upphafspunktur spors á að vera greinilega merktur með stiku sem er stungið í jörðu vinstra megin við upphafspunktinn.
Áður en sporið er lagt, á sporari að sýna dómara hlutina, sem notaðir verða í lögnina.
gengur úr skugga um að hlutirnir hafi verið í snertingu við sporara í a.m.k. 30 mínútur.
Hundurinn á að vera úr sjónmáli á meðan sporið er lagt.
Sporari stoppar andartak við upphafspunkt sporsins og gengur síðan í þá átt sem ákvörðuð hefur verið. Ekki á að róta eða stappa við upphafspunktinn.
Fyrsta millihlut skal leggja í um það bil 50 metra fjarlægð frá upphafspunkti á fyrsta legg sporsins, annan millihlut eftir um það bil 50 metra frá fyrstu beygju.
Endahlut skal leggja við enda sporsins. Hlutina á að leggja í slóðina meðan verið er að leggja sporið þannig að sporari taki skref yfir hlutinn.
Eftir að búið er að leggja síðasta
hlutinn á sporarinn að ganga beint áfram nokkur skref. Þegar spor er lagt má nota mismunandi hluti (t.d. úr leðri, taui eða tré).
Hlutirnir eiga að vera 10 – 12 cm langir, 1-3 cm á þykkt og breidd og mega ekki vera mjög ólíkir yfirborðinu, sem sporað er á, að lit.
Sporalína á að vera 10 – 15 metra löng.
Þegar hundurinn er að vinna sporið mega dómari, prófstjóri og aðstoðarmenn ekki vera á vinnusvæði hans.

Skipun
Leyfilegt er að nota skipunina SPOR við upphaf spors og eftir fyrsta og annan millihlut.

Framkvæmd
Stjórnandi undirbýr hundinn fyrir sporið með því að viðra hann og leyfa honum aðlosa sig.
Sporalína er fest í beisli (leyfileg eru bringubeisli eða Böttgerbeisli, án aukareima) og má liggja yfir bak hundsins, meðfram hliðum eða á milli fram- og afturfóta.
Einnig má festa hana beint í hálsól, sem ekki má vera með virkri hengingu.
Fyrir sporið, á meðan á undirbúningi stendur og í allri sporvinnunni skal forðast allar tegundir af þvingunum og refsingum.
Stjórnandi kemur með hundinn að upphafspunkti þegar hann er beðinn og greinir frá því hvort hundurinn gefi merki (markeri) eða taki hlutina.
Þegar dómarinn gefur bendingu skal fara rólega með hundinn að upphafspunkti og sleppa honum svo í sporið.
Hundurinn á að grípa lyktina í upphafi, ákaft, rólega og með nefið lágt.
Hundurinn á síðan að fylgja sporinu af ákafa með nefið í jörð og á jöfnum hraða.
Stjórnandi á að fylgja hundinum eftir með minnst 10 metra bili við enda sporalínunnar.
Það skal einnig vera 10 metra bil þegar hundurinn sporar laus (frispor).
Sporalínan má hanga laus á meðan stjórnandi sleppir henni ekki.
Hundurinn á að vinna örugglega í beygjum.
Eftir beygju á hundurinn að halda sama hraða í sporinu.
Um leið og hundurinn hefur fundið hlut á hann að taka hann upp eða gefa augljóst merki án áhrifa frá stjórnanda.
Að gefa merki getur verið að leggjast, að setjast, að standa en einnig blandað þ.e. sýna á mismunandi hátt ólíka hluti.
Taki hundurinn hlutinn upp má hann standa, setjast eða koma tilbaka til stjórnanda.
Ef hundurinn heldur áfram með hlutinn í kjaftinum eða tekur hlutinn upp eftir að hafa lagst er það talið villa.
Þegar hundurinn hefur gefið merki um hlut eða tekið hlutinn upp leggur stjórnandi frá sér sporalínuna og fer til hundsins.
Stjórnandi sýnir að hluturinn er fundinn með því að lyfta honum upp í loft.
Síðan tekur stjórnandi sporalínuna aftur upp og heldur áfram sporinu.
Eftir að sporið er búið á að sýna dómara fundna hluti.
Prófstjóri á að leyfa hundi að ljúka við spor án þess að stoppa þótt hann gefi ekki merki um millihluti.

Dómur
Á meðan sporið er unnið ákaft, jafnt og sannfærandi og hundurinn sýnir þar með jákvæða sporhegðun skiptir hraði sporvinnunar ekki máli í stigagjöf.
Ef hundurinn fjarlægist slóðina ekki of mikið er það ekki talin villa þegar hundurinn tekur sveigjur umhverfis sporið til að sannfæra sig um hvar það liggur.
Óvönduð sporavinna er hins vegar þegar hundurinn ber trýnið hátt, er laus í sporinu og tekur löng slög i beygjum, stjórnandi þarf stöðugt að hvetja hundinn eða gefa hjálp með línu- eða rödd.
Þetta á einnig við ef hundur gerir villu í byrjun, gefur röng merki við hlut eða gefur merki þar sem ekki er hlutur.
Dómari dregur teymið niður í stigum fyrir slíkar villur.
Það er dæmd villa ef hundurinn bæði tekur hlutinn í kjaftinn og gefur merki um hlut.
Einungis merki sem hundur gefur og samræmist því sem stjórnandi sagði í upphafi um merki hundsins eru talin til stiga.
Rangar merkingar draga niður stigagjöf fyrir viðkomandi legg í sporinu.
Engin stig eru gefin fyrir hluti sem ekki voru gefin merki við eða voru ekki teknir.
Ef hundur fer úr sporinu og stjórnandi heldur í hundinn gefur dómarinn skipun um að stjórnandi fylgi hundinum.
Ef þessari skipun er ekki fylgt er sporavinnan stoppuð af dómaranum.
Þegar stjórnandi er kominn meira en eina línulengd frá sporinu er prófið sömuleiðis stöðvað.
Ef hundurinn sporar ekki (er á sama stað í lengri tíma án þess að spora) er hægt að stoppa sporið þegar 15 mínútur eru liðnar þó svo að hundurinn sé í sporinu.
Ef ekki tekst að ljúka við sporið á innan við 15 mínútum er það stoppað af dómaranum.
Í því tilviki eru teyminu dæmd stig eftir þeirri vinnu sem unnin hefurverið fram að stoppi.
Gefin eru stig fyrir byrjun sporsins, fyrir hvern legg með millihlutum og endahlut, beygjur í sporinu ásamt sporavinnuna í heild.

Þýðandi Kristín Þorvaldsdóttir.

Sporareglur HRFÍ Vinnuhundadeild HRFÍ