Snyrting

Eftirfarandi aðilar taka að sér að snyrta schnauzer gegn gjaldi:

Hundavinir hundasnyrtistofa s: 5333332
Margrét Ásgeirsdóttir s: 6990120
María Björg Tamini s: 6623992
Líney Björk Ívarsdóttir s: 8996555
Dekurdýr s: 5544242

Að snyrta schnauzer felur í sér bað og burstun, reytingu á feldi, klippa og forma fætur, undirlínu, augabrýr og höfuð, rakstur á eyrum, hálsi og aftan á rassi og klippa klær. Í eftirfarandi umfjöllun verður að mestu leyti fjallað um snyrtingu á feldi þar sem það ætti að vera auðvelt fyrir alla að læra það og gaman er fyrir eigendur schnauzer að geta haldið feldinum á sínum hundi stríum og glansandi. Engin ein aðferð er sú eina rétta, það eru til margar aðferðir við að reyta schnauzer og getur hver og einn fundið sína aðferð.

Bað
Feldurinn heldur sér best í grófleika ef hann er ekki sápuþveginn þar sem sápa mýkir upp feldinn. Best er að sápuþvo eingöngu fætur, skegg, undir kvið og að aftan. Feldurinn er í stöðugri endurnýjun með reytingu og er yfirleitt hreinn nema í undantekningartilfellum eins og til dæmis að hundurinn hafi hreinlega velt sér upp úr einhverjum óþverra, þá getur verið nauðsynlegt að sápuþvo feldinn. Mörg mismunandi shampó eru til og gott er að nota shampó sem ætluð eru fyrir strían feld. Fyrir svartann hund getur verið gott að nota bláleitt shampó en það skerpir oft litinn á fótunum. Burstaðu vel fæturna á hundinum áður en þú baðar hann til að losa allar flækjur og einnig þegar þú þurrkar hann eftir baðið. Ef á að klippa hárin á fótunum er gott að setja froðu fyrst og blása svo fæturnar þurrar á meðan greitt er upp á við.
 
Reyting
Feldurinn á dvergschnauzer samanstendur af tveimur lögum, undirull sem er mjúk og þar yfir strí hár sem mynda yfirfeldinn. Undirullinn liggur næst húðinni og nauðsynlegt er að skafa hana með reytingahníf eða undirfeldssköfu. Undirullin er möttgrá eða hvít á pipar/salt,  möttsvört á svörtum og svart/silfur og hvít á hvítum. Yfirfeldurinn er strír og glansandi. Það er yfirfeldurinn sem er reyttur. Ef feldurinn er klipptur breytist hann algjörlega og verður mjúkur, þunnur og bylgjóttur. Á pipar/salt breytist samsetningin á hárunum frá því að vera þrískipt (svart/hvítt/svart) í það að verða músagrá og svartur feldur verður grár.
 
Þegar hvolpurinn er orðinn 3-4 mánaða er hæfilegt að byrja að reyta hann í fyrsta skipti. Í framhaldi af því þarf að skafa undirullina reglulega þegar yfirfeldurinn byrjar að vaxa aftur til að undirullin kæfi ekki yfirfeldinn. Það er einstaklingsbundið hversu mikil undirull er til staðar en hún á aldrei að vera meiri en svo að húðin sjáist ekki undir. Undirull er mest á ungum hundum og minnkar oft með aldrinum. Það er einnig gott að skafa fæturnar á svörtum dvergschnauzer til að fá fram betri svartan lit. Ný snyrtur hundur hefur engann yfirfeld, heldur er bara undirullin eftir að einhverju leyti.
 
Reytingatæknin er einföld. Settu smá púður á þumalfingur og vísifingur (eða nuddaðu púðri beint á svæðið sem þú ætlar að reyta), strekktu á húðinni og reyttu hárin með púðruðu fingrunum. Taktu bara lítið í einu og dragðu hárin út í þá áttina sem þau liggja, annars getur reytingin valdið hundinum sársauka. Það er einnig gott að nota sérstaka reytingahnífa en það er ekki nauðsynlegt. Ef þú gerir það þarftu að passa sérstaklega að hárin séu toguð með hnífnum í rétta átt til að hnífurinn skeri ekki hárin í stað þess að reyta þau. Mundu að halda húðinni strekktri á því svæði sem þú ert að reyta þar sem það auðveldar reytinguna og veldur hundinum minni óþægindum. Skemmd hár eru frekar laus og auðvelt er að reyta þau á meðan meiri lifandi hár sitja fastar. Að reyta er mikil vinna og mörgum finnst gott að skipta vinnunni niður á nokkra daga. Passaðu þig samt á því að láta ekki líða of langt á milli þar sem þá verður vaxtamismunur í feldinum. Feldurinn vex hraðar á höfði og hálsi hundsins og gott er þá að enda á þeim svæðum. Einnig er nauðsynlegt að reyta stundum hár á fótum og undir kvið. Þá er lengstu hárin reytt léttilega en með reytingunni verða hárin svartari og grófari.
 
Feldurinn fer að koma upp eftir ca. 4 vikur þó svo undirfeldurinn sé þegar farinn að sjást. Þegar yfirfeldurinn fer að koma skaltu byrja að nota hraunsteininn, en farðu varlega til að særa ekki húðina. Tilgangurinn er að eyða hluta undirfeldsins til að hann kæfi ekki yfirfeldinn. Eftir því sem feldurinn vex verður að skipta út hraunsteininum og nota í staðinn reytingahníf. Það þarf að skafa feldinn vikulega til að halda undirfeldinum í skefjum og þá sérstaklega á þeim hundum sem hafa mikinn undirfeld. Það er skafið með því að draga reytingahnífinn í gegnum feldinn á þann hátt að hann taki með sér undirfeldinn. Þegar það er gert er húðinni haldið strekktri.
 
Rúllandi feldur
Rúllandi feldur er samsettur hárum sem eru í lögum, eða hárum sem eru mismunandi löng. Feldinum er haldið við vikulega með því að reyta eingöngu lengstu hárin og er alltaf í góðu ástandi ólíkt hinni aðferðinni þar sem feldurinn lítur mjög vel út í nokkrar vikur, verður síðan úr sér vaxinn og síðan þarf að byrja upp á nýtt með því að reyta niður.
 
Best er að rúlla feld sem er hrjúfur, með lítinn undirfeld og sem vex hratt. Auðveldast er að byrja að rúlla feldinn á 8-12 vikna gömlum hvolpi en auðvitað geturðu byrjað á hundi á hvaða aldri sem er. Ef hvolpurinn er ungur er einfalt að byrja á því að nota hraunsteininn eða grófan reytingahníf og byrja á því að skafa feldinn á meðan þú heldur húðinni strekktri. Á eldri hundum er gott að byrja að skafa feldinn með reytingahníf, sem tekur undirullina og dauð hár. Ef hundurinn þinn hefur mikinn undirfeld eða feldurinn er mjög mjúkur er betra að reyta yfirfeldinn alveg af, þar sem erfitt getur reynst að fá rúllandi feld.
 
Næsta skref er að fara í gegnum feldinn með fingrunum og reyta lengstu hárin. Það þarf að vinna kerfisbundið til að yfirsjást ekki nein svæði. Gott er að byrja aftan á hnakkanum og vinna sig út frá þeim punkti báðum megin niður hliðina og aftur fyrir. Þegar hárin eru reytt á hliðinni er gott að leggja hundinn niður á hliðina, það auðveldar reytinguna. Fínn reytingahnífur er góður til að nota niður með hálsinum, ofan á kollinn og aftan á lærunum. Einnig er hann góður til að fínpússa í lokin.
 
Næsta skref er að nota hraunsteininn og renna honum yfir allann hundinn. Það fjarlægir jafnvel einhver löng hár sem hafa yfirsést og aðeins meira af undirfeldinum. Mikilvægt er að fara gætilega við að nota steininn, sérstaklega á svæðum þar sem feldurinn er mjög þynntur. Eftir það þarf að bursta vel yfir feldinn og skoða hvort einhverjar bungur eru, en það þýðir að hárin á bungunni eru lengri en hárin í kring. Að lokum er gott að setja hundinn á gólfið og fylgjast með honum hreyfa sig til að sjá hvort topplínan er rétt, hvort hún sé slétt en ekki bylgjótt.
 
Sýningafeldur
Það er mikilvægt að undirbúa hundinn vel fyrir væntanlega sýningu. Hafa ber í huga að feldurinn þarfnast reglulegrar umhirðu og leggja þarf sérstaka rækt við feldinn ef á að sýna hundinn. Mat dómarans byggist líka á því hversu góðan feld hann hefur. Annaðhvort þarf hundurinn að vera með rúllandi feld og alltaf í sýningarformi eða það þarf að reyta feldinn alveg niður að minnsta kosti 8-10 vikum fyrir sýningu. Reytingunni þarf svo að fylgja eftir og skafa reglulega undirfeldinn til að stríi feldurinn nái að vaxa fram. Það er mjög mismunandi hversu mikill undirfeldurinn er og einnig hversu hratt feldurinn vex. Þar af leiðandi er feldvinnan mismikil og fer algjörlega eftir feldgerð hvers einstaka hunds.
 
Fætur
Fætur hundsins skulu þvegnir og blásnir áður en þeir eru klipptir. Gott er að setja froðu á fæturnar áður en blásið er til að fá meiri lyftingu í hárin. Hárin eru greidd upp á við og út frá fætinum. Byrjað er á því að klippa hring neðst á fætinum og tvær fremstu klærnar látnar sjást lítillega. Fæturnir eru svo formaðir eins og tveir stólpar. Afturfæturnir eru klipptir á svipaðan hátt en lögð er áhersla á að sýna vel vinklana að aftan.
 
Augabrúnir
Svæðið á milli augabrúna er skýrt afmarkað með því að klippa demantslaga form þar á milli með þynningarskærum. Þær eru greiddar fram á við og formaðar þannig að þær eru styttri á ytri kantinum en hárin höfð lengri á innri kantinum. Augnhár eru fjarlægð. Augabrúnirnar eiga að lyftast lítillega þannig að það sjáist undir bogann frá hlið. Kantar eru jafnaðir út með þynningarskærum. Það getur líka verið smart á einstaka hundum að hafa þær samvaxnar. Þegar höfuðið er séð ofan frá á það að líta ferkantað út. Hár í eyrum eru fjarlægð og gott er að nota eyrnapúður til þess eða jafnvel plokkara.
 
Rakstur
Eyru, háls og rass eru rökuð. Þynningarskæri eru notuð til að fínpússa þar sem skarast rakstur og reyting.


Höfundur: Líney Björk Ívarsdóttir
Heimildir:
Karen J. Brittan (2006). Handstripping a schnauzer
Merete Stæhr Nielsen (2000). Dvergschnauzer, racehunde i Danmark