Schnauzer

Schnauzer (standard schnauzer) er forfaðir bæði risa- og dvergschnauzer og er mitt á milli þeirra í stærð. Schnauzer á að vera samkvæmt FCI staðli 45 til 50 cm á hæð og 14 til 20 kg. Hann er kassalaga í útliti, sem þýðir að búklengdin er jafnlöng og hæð á herðakamb. Schnauzer er til í tveimur litafbrigðum, alveg svartur eða pipar og salt. Á Íslandi eru til báðir litir.

Líftími tegundarinnar er ca 12-14 ár.

Schnauzer ræktendur hafa sagt að það sé auðvelt að verða “bitinn” af schnauzer í þeirri merkingu að þegar fólk hefur á annað borð kynnst þessum knáu, lifandi hundum heillar hann það alveg uppúr skónum með glettna skapinu sínu, gáfum og áræðni.

Schnauzerinn hefur af sínum aðdáendum verið talinn hinn fullkomni fjölskylduhundur og nær það svo langt að þess er getið í staðli hundsins frá FCI. Hann unir sér best í hringiðu fjölskyldulífsins, það er auðvelt að kenna honum og hann er framúrskarandi varðhundur.
Það er jafnframt gleðiefni allra húsmæðra og feðra að schnauzerinn fer ekki úr hárum ef rétt er staðið að feldhirðu en reita þarf hann á 3 – 4 mánaða fresti og bursta yfir skegg og feld reglulega.

Schnauzerinn er strýhærður hundur og hefur tvöfaldan feldi. Mjúkan undirfeld sem liggur nálægt skinninu og stífan yfirfeld sem gerir hann harðann viðkomu. Þessi feldgerð veldur því að hann þolir flest veður með ágætum og skellir sér óhikað út í norðan hraglanda. Schnauzerinn hefur einstakt lyktarskyn og nýtur þess að nota nefið. Hann er með réttri þjálfun liðtækur og duglegur vinnuhundur sem hefur gott úthald.