Risaschnauzer

Risaschnauzer (Giant Schnauzer) eru eins og nafnið gefur til kynna stærstir í schnauzerfjölskyldunni, en þeir eiga að vera samkvæmt FCI staðli 60 til 70 cm á hæð og 35 til 45 kg. Risaschnauzer eru til í tveimur litaafbrigðum, alveg svartur og pipar&salt og báðir litir eru til hér á landi.
Líftími þessarar tegundar er um 10-12 ár.

Risaschnauzer er vinnuhundur og til þess að virka sem vinnuhundur verður hann að sýna ákveðna eiginleika, en mikilvægir eiginleikar risaschnauzer eru meðal annars góð tilfinning fyrir flokknum og lífleg skapgerð. Einnig skal hundurinn vera forvitinn og hugrakkur og með góðan vinnuvilja. Almennt getur maður sagt að risaschnauzer þroskist seint, sem þýðir að þjálfunin verður að henta þroska hundsins. Það verður að bíða með mikla þjálfun þar til hundurinn er orðinn nógu þroskaður fyrir auknar kröfur en það er í kringum 2 ára aldur. Fyrir þann tíma er hægt að gera allan lærdóm að leik og þegar hundurinn er orðinn fullþroska er byrjað að fínslípa það sem hundurinn hefur lært. Margir risaschnauzerar eru góðir til leitarþjálfunar og margir eru góðir sem björgunarhundar. Þar fyrir utan finnast margir góðir í Spori og sambærilegri þjálfun.

Stærsta hluta lífsins eru þó allir hundar selskapshundar, jafnvel risachnauzerinn. Hann yfirfærir eiginleika vinnuhundsins og notar þá eiginleika fyrir hlutverk selskapshundsins. Sterk tilfinning fyrir flokknum þýðir að hundurinn verður óhagganlega trúr fjölskyldu sinni. Lífleg skapgerð og stór skammtur af forvitni gerir það að verkum að lífið verður aldrei leiðinlegt. Risaschnauzer elskar snertingu og vill helst sitja á hnjánum á einhverjum. Hann elskar fjölskyldu sína og líður ekki vel ef hann fær ekki að vera með henni. Flestir risachnauzerar eru góðir með börnum.

Risaschnauzer er snjall hundur. Ef lífið verður of tilbreytingalaust eða leiðinlegt fer hann að hafa ofan af fyrir sér sjálfur – og sínum húsbónda. Af hverju ekki að sækja sjálfur dótið, náttskyrtuna undir koddanum eða eitthvað annað og stilla sér upp fyrir framan húsbóndann og horfa á hann árvökulum augum undan toppnum. Það er ekkert hik í gangi. Auðvitað er það gott að hundurinn fái sína hreyfingu, en helst vill hann þurfa að nota höfuðið. Að leita að földum hlutum innan húss gerir hann jafn ánægðan og jafnvel ánægðari en klukkutíma göngutúr.

Risaschnauzer er mjög harðger og þolir allskonar veður. Lífið fyrir risaschnauzer er fjallaferð með bakboka fullan af eigin mat, fara í gönguferð í hellirigningu og fara með í skíðaferð fjölskyldunnar.

Það skal reyta risaschnauzer eða klippa hann. Í snöggum feldi fellir hann lítil sem engin hár. Flestir eigendur risaschnauzer læra sjálfir að halda sínum hundi í fínum feldi.
Risachnauzer er vinnuhundur/keppnishundur sem krefst samvinnu og að eigandi hans sé sjálfum sér samkvæmur. Vegna þess hversu snjall hann er og hversu andlega sterkur hann er, þarfnast hann eiganda sem er sjálfum sér samkvæmur. Ef reglurnar eru sanngjarnar færðu til baka félaga sem gerir allt fyrir húsbónda sinn.

Risaschnauzer er viðkunnanlegur fjölskylduhundur sem krefst virkni
Risaschnauzer er snyrtitegund sem með réttir meðhöndlun fellir lítil sem engin hár
Risaschnauzer er hundur sem þú getur tekið með þér í ævintýraferðir.
Risaschnauzer finnst hann vera jafningi þinn og ef þú ert samkvæmur sjálfum þér færðu þann besta félaga sem nokkur getur óskað sér.

Þýtt af Líney Ívarsdóttir af heimasíðu Sænska Risaschnauzerklúbbsins.