Fundargerðir


12.03.2008

Schnauzerdeild HRFI
 
Stjórn og nefndir
Stjórn
Líney Björk Ívarsdóttir
Rakel Rán Guðjónsdóttir
Margrét Kjartansdóttir
Valgerður Stefánsdóttir
Anna D. Hermannsdóttir
Fráfarandi stjórnarmeðlimir
Fríður Esther Pétursdóttir
Sigríður Pétursdóttir
 
Sýninga- og kynningarnefnd
Bjarndís Helena Mitchell
Dagný Ívarsdóttir
Kolbrún Snorradóttir
Göngunefnd
Ína B. Guðmundsdóttir
Sigurður F. Guðfinsson
 
 
Ræktunarkröfur og heimasíða
Stjórn Schnauzerdeildar hefur fundað alls átta sinnum frá síðasta aðalfundi. Rætt hefur verið um kröfur til ræktunardýra og hvort breyta ætti þeim. Skapgerðarmat hefur verið mikið til umræðu og á hvaða aldri hundur er nógu þroskaður fyrir fyrsta got. Niðurstöður voru þær að deildin gerir kröfur um skapgerðarmat fyrir standard- og risaschnauzer og að lágmarksaldur á þeim fyrir pörun ætti að vera 24 mánaða en 18 mánaða hjá dvergschnauzer. Einnig var rætt um skjaldkirtilsvandamál í risaschnauzer en borið hefur á því vandamáli í tegundinni erlendis. Skoða þyrfti hvern hund fyrir pörun og þarf stjórnin að leita sér upplýsinga á hvaða aldri það sé gert og setja það inn sem kröfu fyrir ræktun.       
 
Heimasíða deildarinnar kemur vel út og er þar gagnabanki með upplýsingum um alla schnauzerhunda á Íslandi. Einnig eru þar fréttir og auglýsingar sem viðkoma schnauzer og eigendum þeirra.
 
Hingað til hafa eingöngu got sem staðist hafa kröfur deildarinnar verið auglýst á heimasíðunni. Ákveðið var að breyta því og verða öll got sem skráð verða í ættbók auglýst á síðunni, það er að segja þau got sem standast heilbrigðiskröfur Hrfi.
 
Félagsfundur var haldinn í Sólheimakoti í nóvember 2007. Þar voru meðal annars kynntar nýjar ræktunarreglur og auglýsingabæklingur fyrir allar tegundir. Einnig var fólk hvatt til starfa í nefndum og varð breyting á fyrri nefndum. Í sýninga- og kynningarnefnd eru nú Bjarndís Helena Mitchell, Dagný Ívarsdóttir og Kolbrún Snorradóttir en í göngunefnd eru Ína B. Guðmundsdóttir og Sigurður F. Guðfinsson.
 
 
 
Fyrirlestrar og fræðsla
Björn S. Árnason framkvæmdastjóri og hundaatferlisfræðingur hélt fyrirlestur fyrir meðlimi deildarinnar um atferli hunda. Brynja Tómer og Sigríður Bílddal héldu fyrirlestur um skapgerðarmat og rússneski dómarinn Eugene Yaruslamski hélt fyrirlestur um byggingu hunda. Góð þátttaka var á fyrirlestrunum en allir voru þeir haldnir uppí Sólheimakoti. Stjórn ætlar að skoða möguleika á fleiri spennandi fyrirlestrum til að efla meðlimi deildarinnar í sínu hundahaldi.
 
Jafnframt héldu tveir stjórnarmeðlimir snyrtinámskeið þar sem kennd var grunnfeldhirða á schnauzer.
Sýningar og kynningar
Fuglahundadeild bauð okkur til þátttköku á deildarsýningu þeirra þann 13. maí 2007 með dómaranum Vigdis Nymark sem dæmdi schnauzer með opnum dómi inn í reiðhöll Sörla í Hafnarfirði. Einnig var deildin með eigin sýningu í janúar 2008 með dómaranum Željka Fon Zidar frá Slóveníu. Sú sýning tókst með eindæmum vel en metþáttaka var í skráningu hunda á sýninguna og voru 60 hundar skráðir til leiks. Sýningin var í samstarfi við DÍF og Fjár- og hjarðhundadeild og þótti hún takast það vel að rætt var um að gera þetta að árlegum viðburði hjá deildinni og jafnvel í áframhaldandi samstarfi við hinar tvær deildirnar.
 
Kynningarbæklingur er orðinn að veruleika og hafa Dýrheimar styrkt útgáfu bæklingsins með því að greiða prentkostnað gegn auglýsingu. Myndir frá félagsmönnum voru notaðar í bæklinginn og hafa einnig myndir verið settar í ramma til að nota í kynningarbás deildarinnar á sýningum og ýmsum stöðum þar sem tækifæri gefast.
Augnskoðun
Alls fóru 28 dvergschnauzerar í augnskoðun á árinu og tveir risaschnauzerar. Enginn greindist með arfgenga augnsjúkdóma.
Mjaðma- og olnbogamyndir
Þrír risaschnauzerar fóru í mjaðma- og olnbogamyndatöku. Allir voru A/fríir á olnbogum og tveir voru með A-mjaðmir og einn með B.
Skapgerðarmat
Átta dvergschnauzerar, fjórir risaschnauzerar og einn standard schnauzer fóru í skapgerðarmat.
Yfirlit yfir got og innflutning fyrir árið 2007
Got
Dvergschnauzer
2 got svart/silfur 13 hvolpar
8 got svart 30 hvolpar
1 got pipar og salt 1 hvolpur
 
 
Standard schnauzer
2 got pipar og salt 15 hvolpar
 
Risaschnauzer
1 got svartur 1 hvolpur
Innflutningur
1 pipar og salt dvergschnauzer
4 hvítir dvergschnauzer
3 svartir dvergschauzer
4 svart/silfur dvergschnauzer
1 svartur risaschnauzer
1 pipar og salt risachauzer
Meistarar
Einn dvergschnauzer og einn standard schnauzer hlutu titilinn íslenskur meistari
ISCH Daria Misurata
ISCH Nichi Overall Bláklukku