Stjórn deildarinnar mælir með að ef fólk er að íhuga pörun, að það hafi samband tímanlega (6-4 vikum fyrir lóðarí) við deildina til að fá ráðleggingar og ábendingar um hunda sem gætu mögulega hentað.
Úr reglum HRFI, Starfsreglur ræktunardeilda HRFÍ;
11. Leiti tíkareigandi ráða varðandi val á hundi til undaneldis, skal ræktunarstjórn benda á 3 hunda, sé það mögulegt. Undirstrika skal, að það er alfarið ákvörðun tíkareigandans hvaða hund hann notar.
Áður en þú ferð af stað eru nokkur atriði sem þú skalt hafa í huga.
Hreinræktaðir hundar eru ræktaðir með tiltekna byggingu, skapgerð og útlit að markmiði. Upplýsingar um það eru að finna í ræktunarmarkmiði hverrar tegundar sem er gefið út af Alþjóðasamtökum hundaræktarfélaga (FCI) og er m.a. aðgengilegt á vef Schnauzerdeildar.
Gott er að reyna að gera sér grein fyrir hvaða kosti hundurinn þinn hefur sem eru mikilvægir fyrir tegundina. Ein leið til þess er að fara með hundinn/tíkina á hundasýningu HRFÍ en þar er verið að kanna hversu vel hundurinn þinn passar við ræktunarmarkmið tegundarinnar. Á sýningunum eru dómarar sem hafa flestir áratuga reynslu af ræktun og hafa mikla og góða þekkingu á hverri hundategund. Dómararnir gefa einkunnir eftir því hversu vel hundurinn uppfyllir ræktunarmarkmiðið. Hundar sem fá EXCELLENT eru mjög góðir fulltrúar tegundarinnar og eru ekki með neina augljósa galla . VERY GOOD merkir að hundurinn hafi ekki áberandi galla og getur verið góður til ræktunar. GOOD merkir að gallar hundins geri hann einungis viðunandi til ræktunar. SUFFICIENT þýðir að hundurinn er sæmilegur að gerð en er þó ekki týpiskur fulltrúi hundakynsins og því vart æskilegur í ræktun, 0 einkun hefur augljósa galla í byggingu eða skapgerð sem gera hann óæskilegan í ræktun.
Ekki er ráðlegt að nota dverg schnauzer tíkur til ræktunar fyrir 20 mánaða aldur og schnauzer- og risa schnauzer tíkur ekki yngri en 24 mánaða . Ekki er leyfilegt að rækta undan tíkum sem eru orðnar 7 ára gamlar nema dýralæknir gefi leyfi til þess áður en pörun fer fram. Einnig er óheimilt að taka fleiri en 5 got undan einni tík.
Ræktendur eru hvattir til að sækja ræktunarnámskeið sem eru haldin hjá HRFÍ þar sem er farið í byggingu hunda og önnur atriði sem er gott að gera sér grein fyrir áður en byrjað er á ræktun.
Góðir ræktendur ganga úr skugga um að ræktunarhundar séu ekki með neina erfðagalla, t.d. mjaðmalos,augnsjúkdóma eða aðra sjúkdóma sem geta valdið hundinum og hvolpum undan honum óþægindum eða kvölum að óþörfu. Einnig er æskilegt að fara með ræktunarhunda í skapgerðarmat hjá HRFÍ sem gefur vísbendingar um skapgerð hundsins og viðbrögð við ýmiskonar áreiti.
Það er undir ræktandanum komið að bera ábyrgð á sinni ræktun og gæta þess að hundar sem notaðir eru til ræktunar séu góðir fulltrúar sinnar tegundar og kynni sér hvað felst í því að vera með góða ræktun.
Göngunefnd: Skipulagning á ákvörðun gönguferða og staðsetningar þeirra meðal schnauzersfólks.
Kynningar og sýningarnefnd; Skipulagning kynningaefnis fyrir deildina, uppsetning kynningabás deildarinnar á sýningum, ásamt þeirri ábyrgð að skipuleggja mætingu fólks þegar deildin sér um að skaffa fólk í vinnu á sýningum félagsins.
Ef þú hefur áhuga á að vinna með einhverjum af þessum nefndum, endilega hafðu samband við einhvern í stjórn deildarinnar.