Fundargerðir


31.08.2009

Stjórnarfundur í schnauzerdeild 31. ágúst 2009  20 - 22 Allir mættir

1)      Reikningur deildar. Magga Kjartans heldur áfram að vera með reikning deildarinnar þar til Klara hefur fengið kennitölu fyrir deildina en þá mun Klara taka við gjaldkerastörfum. Gengið var frá undirritun umsóknar um kennitölu og stofnskrá.

2)      Minnt var á að setja Royal Canin inn á síðu deildarinnar sem styrktaraðila. Setja á styrktarlínu inn um leið og úrslitin eru skráð inn á síðuna.

3)      Ákveðið að hafa félagsfund þriðjudaginn 17. nóvember. Fundurinn verði eins konar stefnumótunar- eða hugmyndafundur fyrir starf stjórnar og deildar. Deildarfólk er hvatt til þess að koma með hugmyndir að starfsemi deildarinnar sem stjórn getur unnið úr í framhaldinu.

4)      Sýningaþjálfun. Rætt var um að fá einn aðila til þess að sjá um sýningaþjálfun deildarinnar. Magga Kjartans mun ræða við fólk, sem hefur reynslu af sýningaþjálfun, um starfið. Líney tók að sér að hafa samband við Huldu um samvinnu og dagsetningar fyrir sýningaþjálfun. Stungið var upp á að byrja um miðjan september.

5)      Ræddar voru tillögur Klöru um fjáröflun en þær voru:

-       að bjóða lögaðilum að auglýsa á heimasíðu deildarinnar þó ekki hundaskólum, ræktunarsýningum eða hvolpaseljendum

-       að halda hundabingó í Sólheimakoti

-       að gefa út schnauzerdagatal með auglýsingaborðum. Óska eftir myndum frá schnauzereigendum og velja úr myndum

-       að selja lakkrís

6)      Gagnagrunnur. Klara sýndi gagnagrunn, sem hún á og hefur skráð í Chihuahua hunda. Grunnurinn getur haldið utan um mikið magn af upplýsingum. Klara tók að sér að tala við Steina um hvort hægt væri að smíða við hann þannig að hægt sé að birta hann á heimasíðunni. Ef það er hægt – hve mikið kostar það og getur hann tekið það að sér. Gangi þetta upp þarf deildin að fara í fjáröflun til þess að kaupa sér slíkan gagnagrunn.

7)      Rætt var um að hundur hafi greinst með cataract og hafi verið settur í sjálfkrafa ræktunarbann. Dýralæknir gat ekki skorið úr um hvort sjúkdómurinn væri vegna elli eða ættgengur. Klara benti á að samkvæmt lögum HRFÍ væri ekki hægt að setja dýr í ræktunarbann vegna cataract. Einungis þegar PRA greindist í hundi færi hann sjálfkrafa í ræktunarbann. Ákveðið var að skrifa stjórn HRFÍ bréf og óska rökstuðnings og skýringa.

8)      Hvolpadagar voru ákveðnir í vor en gera þarf kynningarefni fyrir deildina fyrir þann tíma. Ákveðið var að útbúa bréf til kynningar á deildinni sem síðar gæti fylgt ættbók frá seljendum. Klara tók að sér að gera drög að bréfi og senda á aðra í stjórn.

9)      Klara fór yfir helstu sjúkdóma í schnauzerhundum í Svíþjóð. Hún byggði á fyrirlestri um sjúkdóma hunda sem Agria bauð meðlimum HRFÍ upp á fyrir nokkru. Klara lagði áherslu á að þessar niðurstöður giltu um Svíþjóð og að það væri ekki hægt að yfirfæra þær beint á íslenska hunda.  Rætt var um sjúkdóma í íslenskum hundum og ákveðið að fá upplýsingar hjá Ínu um einkenni nýrnasteina í schnauzer og birta upplýsingar á heimasíðunni (MaggaK). Klara getur tekið saman helstu niðurstöður frá Svíþjóð.

10)     Ræktendur voru áminntir um að vera duglegri við að senda tilkynningar til hvolpakaupenda vegna viðburða á vegum deildarinnar.

11)     Næsti fundur var ákveðinn á Súfistanum í Hafnarfirði kl 17 þriðjudaginn 6. október

Valgerður Stefánsdóttir