Fundargerðir


19.01.2010

Stjórnarfundur schnauzerdeildar 19.janúar 2010 á Súfistanum
 
Dagskrá:
 
1.       Smáhundadagar í Garðheimum og sýningarbás.
 
Ákveðið var að fá kynningarnefnd til að ráðstafa dögunum. Líney ertilbúinn til að vera eitthvað á bás og Margrét líka. Líney setur auglýsingu á síðuna og ræðir við kynningarnefnd.
Líney talar við Dagnýju um að raða niður í bás á sýningu.
 
2.       Lokað hlýðni- og sporapróf.
VHD heldur fund í vikunni þar sem þetta er á dagskrá. Gert er ráð fyrir að prófin verði haldin í ágúst. Lágmarksfjöldi þátttakenda til að halda próf er 5.
 
3.       Sýningarþjálfun. Við getum fengið að vera ásamt fuglahunda og shihzudeild í Gusti 3 fimmtudaga fyrir sýningu kl 21.
Magga athugar með auglýsingu og kemur henni á HRFÍ síðuna. Elli tekur að sér að stýra sýningaþjálfun. Líney talar við hann og nefnir einnig að Brynja sé tilbúin að halda fyrirlestur um sýningarþjálfanir.
 
 
4.       Fundur með sýningarstjórn vegna aðstöðu sýnenda, þe. að fá að vera með borð og búr inn í sýningarsalnum, við hringina.
 
Magga hitti Soffíu shihzudeild, formann terrierdeildar og Möggu í smáhundadeild. Þær ræddu um að óska eftir því, ásamt Papilliondeild, að fá að hafa búr, borð og stóla inni á svæðinu. Það þýðir færri aðstoðarmenn og betri umgengni. Þær báðu um fund með sýningarstjórn en hafa ekki fengið svar.
 
 
5.       Breyting á ræktunarreglum fyrir risa. Rætt var um hvort rétt væri að banna undaneldi hunda sem greinast með D og E mjaðmalos eins og hefur verið gert hjá ýmsum tegundum td. stærri tegundunum innan P.M.F og Fjár- og hjarðhundadeild.
 
Samþykkt.
 
 
6.       Stjórn HRFÍ leitar eftir áilit deilda á beiðni frá Fuglahundadeildar
 
um að stjórn HRFÍ gefi félögum í sérdeildum tegunda í tegundahópi 7 kost á aðild að FHD með fullum félagsréttindum. Yrði sú aðild að vera samþykkt af stjórn FHD.
 
Í tillögum frá FHD stendur:
 
II. Stofun rætkunardeilda ( bætt við nýrri grein, gr.4. verður gr.5)
 
4. Þegar hópdeild er starfandi ásamt sérdeild innan sama tegundahóps geta meðlimir sérdeilda öðlast kosningarétt og kjörgengi í hópdeild í stað
sérdeildar, að fengnu samþykki stjórnar hópdeildar.
 
 
III. Stjórn ræktunardeilda
 
2. (rauðletruð viðbót í fjórðu setningu)
 
Kosningarétt og kjörgengi á ársfundum deilda hafa þeir sem eru skráðir eigendur hunda eða hafa verið skráður eigendur hunda undanfarin 2 ár í
viðkomandi deild, eru skráðir í deildina og skuldlausir við félagið þar ár sem ársfundur er haldinn.
 
Samþykkt var í stjórn HRFÍ að leita álits lögfræðings hvort að þetta standist félagalög. Samþykkt að leita til Lilju Dóru Halldórsdóttur" Í hennar áliti kemur fram:
 
,,Til þess ber fyrst að líta að Hundaræktarfélag Íslands er mjög opið,almennt félag. Samkvæmt samþykktum þess, geta allir þeir orðið félagsmenn
sem:"áhuga hafa á málefnum HRFÍ og eru ekki félagsmenn í öðrum félögum sem vinna á móti HRFÍ og markmiðum þess, hafa ekki gerst sekir um illa meðferð á dýrum eða á annan hátt vanvirt markmið félagsins eða skaðað orðstí þess." (grein 5.a). Í sömu grein er einnig tiltekið að kosningarétt og kjörgengi hafi þeir sem greitt hafi félagsgjald sitt.
 
Helstu markmið félagsins eru talin upp í I. kafla samþykktanna og til að ná markmiðum sínum er m.a. kveðið á um það í grein 3.b, að félagið skuli stofna
ræktunardeildir sem standa vörð um ræktun og ræktunarmarkmið hundakynja. Sérstakur kafli í samþykktunum, kafli VII, fjallar síðan um ræktunardeildir,
auk þess sem tilgreint er að þær eigi fulltrúa í fulltrúaráði HRFÍ, svo ljóst er að þær eru hluti af grunnstoðum og skipulagi félagsins.
 
VII kafli samþykktanna setur ramma utan um starfsemi ræktunardeildanna. Í
grein 20 (kafla VII) segir að: "Meðlimir ræktunardeilda geta þeir einir orðið sem eru fullgildir félagsmenn
í HRFÍ. Kosningarrétt og kjörgengi á ársfundum ræktunardeilda hafa þeir sem eru skuldlausir við félagið 1. mars ár hvert."
 
Þessi grein er í samræmi við grein 5.a um almennan rétt til félagsaðildar í HRFÍ og kosningarétt og kjörgengi. Þá segir í 21. grein að stjórn HRFÍ skuli
setja reglur um stofnun og skipulag ræktunardeilda. Þær reglur þurfa að sjálfsögðu að vera innan þess ramma sem samþykktir HRFÍ setja og mega ekki
ganga í berhögg við þau sjónarmið í félagastarfsemi sem HRFÍ byggir á og fram koma í samþykktum þess.
 
Stjórn HRFÍ hefur samkvæmt þessu sett sérstakar reglur um starfsemi ræktunardeilda. Í II. kafla þeirra reglna eru þrenns konar ræktunardeildir
skilgreindar:
a) Ræktunardeild um eitt hundakyn sem kallast sérdeild.
b) Ræktunardeild um tvö eða fleiri hundakyn sem tilheyra sama tegundahópi og hafa svipaða meðfædda eiginleika kallast hópdeild.
c) Í safndeild eru þau hundakyn sem ekki tilheyra sérdeild eða hópdeild.
 
Þessar mismunandi tegundir ræktunardeilda eru fyrst og fremst tilkomnar vegna mismunandi fjölda ræktunarhæfra dýra af einstökum hundakynjum og
sameiginlegra eiginleika og skyldleika hundakynja sem þykja þá eiga betur saman en önnur.
 
Stjórn HRFÍ hefur sett takmarkanir umfram þær sem samþykkti félagsins kveða á um, bæði á kosningarétt félagsmanna í ræktunardeildum (einungis félagsmenn
sem eiga hund/a af viðkomandi hundakyni/kynjum), og á kjörgengi í ræktunarstjórnir þeirra (einungis félagsmenn sem hafa átt hund/a af viðkomandi hundakyni/kynjum OG hafa verið félagsmenn HRFÍ í a.m.k. 2 ár). Þegar litið er til markmiða HRFÍ og þeirra ákvæða sem samþykktir HRFÍ geyma
um ræktunardeildir, má skilja þessar takmarkanir sem viðleitni til að tryggja betur að til trúnaðarstarfa í ræktunarstjórnum veljist fólk sem hafi
þekkingu og áhuga á viðkomandi hundakynjum og þekkingu á starsemi HRFÍ. Þannig þjóni starfsemi deildanna betur markmiðum sínum skv. samþykktum HRFÍ.
Takmarkanirnar eru skýrar, almennar og óhlutdrægar, þ.e. eru gagnsæjar og gilda þannig séð jafnt um alla félagsmenn sem geta allir uppfyllt þessi
skilyrði með tímanum.
 
Þær tillögur sem Fuglahundadeild hefur sent stjórn HRFÍ um breytingar á reglum um starfsemi ræktunardeilda eru tvenns konar.
 
Annars vegar er eftirfarandi tillaga um breytingu á III. kafla reglanna, um stjórnir ræktunardeilda:
 
(breyting/viðbót er rauðletruð): 2. Kosningarétt og kjörgengi á ársfundum deilda hafa þeir sem eru skráðir eigendur hunda eða hafa verið skráðir
eigendur hunda undanfarin 2 ár í viðkomandi deild, eru skráðir í deildina og skuldlausir við félagið það ár sem ársfundur er haldinn.
 
Hins vegar er eftirfarandi tillaga um nýtt ákvæði í II. kafla reglnanna um
stofnun ræktunardeilda:
 
4. Þegar hópdeild er starfandi ásamt sérdeild innan sama tegundarhóps, geta meðlimir sérdeilda öðlast kosningarétt og kjörgengi í hópdeild í stað
sérdeildar, að fengnu samþykki stjórnar hópdeildar.
 
Núverandi 4. grein verði svo 5. grein.
 
Varðandi fyrri tillöguna, verður ekki séð að hún fari frekar gegn ákvæðum eða anda samþykkta HRFÍ en núverandi takmarkanir skv. reglum um starfsemi
ræktunardeilda. Þvert á móti myndi hún rýmka rétt félagsmanna til kosninga og kjörgengis og vel má færa rök fyrir því að hún sé til þess fallin að
halda betur þekkingu á viðkomandi hundakynjum og starfsemi HRFÍ, innan deildanna. Þannig geta þeir sem átt hafa hund af viðkomandi hundakyni lengi
en t.d. nýlega misst hann, áfram haft kosningarétt og kjörgengi í deildinni.
 
Síðari tillagan gerir hins vegar ráð fyrir ógagnsærri og matskenndri ákvörðun um kosningarétt og kjörgengi félagsmanns í deild, sem er í alla
staði andstæð þeim almennu, gegnsæju og opnu reglum um deildaraðild (-og félagsaðild) sem fram koma í samþykktum HRFÍ. Ekki verður séð að slík
matskennd ákvörðun (og að viðkomandi sé útilokaður frá sérdeild með því að "velja" hópdeildina) þjóni svo verulega markmiðum félagsins og starfsemi
ræktunardeilda að það réttlæti þessi andstæðu sjónarmið (í félagaréttarlegum skilningi).
 
Hitt er svo annað mál, að hægt væri að færa rök fyrir því að það sé hæpið að stjórn geti yfir höfuð takmarkað aðild að ræktunardeildum umfram samþykktir
félagsins, eins og gert er í starfsreglum ræktunardeilda, sérstaklega þar sem samþykktir HRFÍ kveða á um kosningarétt og kjörgengi á ársfundi þeirra.
Sjálfsagt hefði betur farið á því ef aðalfundur HRFÍ hefði breytt samþykktunum fyrst"

 
Stjórn schnauzer deildar er samþykk breytingu á 3. Kafla með þeim fyrirvara að það sé framkvæmanlegt.
2. Kosningarétt og kjörgengi á ársfundum deilda hafa þeir sem eru skráðir eigendur hunda eða hafa verið skráðir eigendur hunda undanfarin 2 ár í viðkomandi deild, eru skráðir í deildina og skuldlausir við félagið það ár sem ársfundur er haldinn.
 
Hins vegar styður stjórn ekki síðari tillöguna og tekur undir álit Lilju Dóru.
 
Önnur mál:
 
1.       Pörunaraldur. Stjórn sér ekki ástæður til að breyta aldri við pörun frá því sem nú er.
 
2.       Rætt um breytingar á útreikningi á stigahæsta hundi.
Magga vill fá viðbótarstig ef hundur lendir í sæti í grúppu. Tillaga um að gefa hundum stig fyrir sæti í grúppu 1,2,3,4. Deildarsýningar gefa ekki stig. Líney ætlar að prófa að setja upp dæmið með viðbótartillögum. Ákveðið var að birta skuli stig á síðunni yfir 10 stigahæstu hunda.
 
3.       Aðstoð á næstu sýningu. Útvega þarf fjóra í leggja og taka teppi, einn í dyragæslu og einn til að setja upp sýningu (samtals 6).
Líney sendir beiðni á póstlista deildarinnar og óskar eftir aðstoð.
 
4.       Líney talaði við Ulf Bråthen um að dæma á sýningu. Hann lagði til að hann yrði fenginn til að dæma á sýningu HRFÍ og dæma síðan deildarsýningu hjá schnauzer strax á eftir. Hann hefur rétt til að dæma tegundahóp 1, 2 og margar terriertegundir. Ákveðið var að taka þessa tillögu til athugunar.
5.       Fram kom tillaga um að halda snyrtinámskeið í Sólheimakoti 7. mars allan daginn. VS mun hringja og panta Sólheimakot.
6.       Aðalfundur verði haldinn í mars 2. vikuna t.d. 9. mars eða 11. mars vs ath með Síðumúla
7.       Næsti fundur 9. febrúar kl 18 30
a.       Fyrirkomulag á kosningu til stjórnar.
b.       Nýliðadagar
c.        Gagnagrunnur
 
VS Fundi slitið kl 20:11