Dvergschnauzer

Dvergschnauzer (miniature schnauzer) eru minnstir af schnauzertegundunum og eiga að vera samkvæmt FCI staðli 30 til 35 cm á hæð og 4.5 - 7 kg. Dvergschnauzer er með kassalaga byggingu og er til í fjórum litaafbrigðum, alveg svartur, pipar og salt, svartur/silfraður og hvítur. Á Íslandi eru til allir leyfilegir litir.
Líftími tegundarinnar er 12-15 ár.


Dvergschnauzer er greindur, óttalaus, þrekmikill og árvökull sem gerir hann að þægilegum heimilishundi sem og varðhundi og félaga og hæfan til að búa í litlu húsnæði án vandræða. Dversgchnauzer er þolinn og kröftugur hundur sem er almennt mjög heilsuhraustur og þolir vel allskonar veðráttu. Hann hefur gott úthald og getur fylgt eiganda sínum í langar göngur en getur líka og án vandræða verið eiganda sínum góður félagsskapur í rólegheitum á gólfvellinum eða heima í stofu.

Dvergschnauzer er í góðu andlegu jafnvægi og skal á engan hátt vera feimin, taugaveiklaður eða árásargjarn. Sumir eru varir um sig gagnvart ókunnugum, sem er ekki galli heldur ákveðin sjarmi. Það má rekja til gamalla karaktereinkenna sem liggur í tegundinni og hefur ekkert með taugaveiklun að gera. Margir Dvergschnauzerar tala og koma þá hljóð sem eru allt frá dimmu urrhljóði til hærri gleðihljóðs og huggulegs kurr. Dvergschnauzer notar þessi hljóð til að fá það sem hann vill.

Greind dvergschnauzers, kátína og leikgleði ásamt miklum samstarfsvilja gerir hann einstaklega góðan til þjálfunar í hlýðni og hundafimi. Hann krefst ekki margra endurtekninga áður en hann er búinn að læra hlutina. Þó hann hafi ákveðið sjálfstæði er hann auðveldur í þjálfun, hann vill gjarnan læra og hefur gaman að því þó þjálfunin feli stundum í sér að sannfæra hann um að það er hann sem á að læra eitthvað nýtt. Hann getur haft sínar skoðanir og þær falla kannski ekki alltaf saman með skoðunum eiganda hans. Dvergschnauzer er hugrakkur með gott jafnvægi og er traustur og trúr vinur. Hann nýtur lífsins þar sem hann er fær um að skemmta sjálfum sér.

Dvergschnauzer þrífst mjög vel í hóp með öðrum og hefur mikla hæfileika til að deila lífi sínu með öðrum dýrum. Hann er mjög umburðarlyndur og ekki afbrýðisamur. Það er auðvelt og án vandkvæða að eiga fleiri af sama kyni, andstætt mörgum öðrum hundategundum.